Stoðkerfið
Flestir vita líklega hvað stoðkerfið (Musculoskeletal system) er. Ef ekki, þá er stoðkerfið bein, liðbönd, sinar, brjósk og vöðvarnir sem festast á beinagrindina. Stoðkerfið heldur okkur uppréttum og til að framkvæma hreyfingar. Til að vera ítarleg þá geymir og verndar stoðkerfið líffærin, hjálpar að flytja blóð og fleira um líkamann.
Einfalt ekki satt, eða hvað? Að mínu mati þá gleymist oft að fara dýpra í stoðkerfið svo að við áttum okkur á að stoðkerfið er töluvert flóknara og merkilegra en við áttum okkur á. Enn fremur að mínu mati, þá tel ég ákveðna villu vera þegar líkaminn er flokkaður í flokka og strúktúra, því ég er nokkuð viss um að kerfið (miðtaugakerfið) sem stýrir öllum í líkamanum, flokkar sig ekki eins og menntakerfið, bækur eða annað nám gerir. Líkaminn er ein heild og öll kerfin vinna saman og því er ávallt mikilvægt að muna að þegar einn strúktúr vinnur ekki skilvirkt, þá dreifist álagið á aðra strúktúra.
Stoðkerfið tekur á móti öllu því álagi og áreiti sem við verðum fyrir bæði frá ytra- (utan líkama) sem og innra (innan líkamans) umhverfi. Eins og ég sagði hér að ofan þá vinnur líkaminn sem ein heild og þá er auðvelt að átta sig á á því að án tauga- og miðtaugakerfisins, ásamt hjarta og æðakerfisins mun stoðkerfið ekki virka. Flest okkar hafa upplifað að vera stíf og eða með ónot í líkamanum á einhverjum tímapunkti og segjum að maður sem er t.d. stífur í mjóbaki með eða án verkja að þá er líklegt að við líkamsskoðun og þreifingu að mjóbaksvöðvarnir séu í spennu (hypertonic muscle). Þegar vöðvar eru í spennu skerðist blóðflæðið að einhverju leyti sem getur valdið blóðþurrð (ischemia). Það þýðir að vöðvinn skorti næringarríks blóðflæði og þegar maðurinn finnur fyrir verk eða stífleika þá fari hann að hreyfa sig eða nudda svæðið til að líða betur. Með þessu er miðtaugakerfið að biðja manninn að bregðast við þessum skort. Nú ef það verður skert blóðflæði til vöðvans, þá er líklegt að vöðvinn eigi erfiðara með að losa sig við úrgangsefni sem myndast við vinnu og spennu. Ef þetta umhverfi er rétt metið hjá mér, er þá ekki hægt að segja að það verði „túrbó álag á þessu svæði þar sem spennan veldur skerðingu á losun úrgangsefna og skerðingu á að veita næringarríks blóðs á svæðið? Og við þessar aðstæður er þá ekki líka hægt að segja að lækningargeta líkamans skerðist um leið? Niðurstaðan verður því á endanum verkur, óþægindi og stoðkerfisvandamál.
Ef við förum aðeins dýpra, þá þurfum við að horfa á bandvefi líkamans. Það er enginn vefur eða strúktúr sem er ekki vafinn bandvef og ekki langt síðan að vísandamenn áttuðu sig á að bandvefur er mjög tengdur taugakerfinu. Í dæminu hér að ofan þá er stærsti og þykkasti bandvefur líkamans staðsettur í kringum mjóbakið (thorocolumbar fascia). Allir vöðvar og vöðvafrumur eru þakin bandvef og í spennu myndast tog. Eða kemur togið frá bandvefnum fyrst sem veldur vöðvaspennunni? Hvort sem er þá getur þessi spenna og tog myndað skekkjur og skerta hreyfigetur á einum stað og út frá því þá getur maður sem er stífur í mjóbakinu jafnvel þróað með sér hnéverk þar sem þessi skerta hreyfigeta í mjóbaki getur aukið álag hjá öðrum strúktúr eins og t.d. í hnénu.
Það má því líkja líkamann við boxpúða. Boxpúði er hannaður til að taka á móti höggum og gerir það mjög vel. Með tímanum slitnar boxpúðinn, slit og rifur geta myndast. Því meira sem hann fær af höggum og eða því þyngri sem höggin eru, því fyrr kemur slit og rifur. Ef eigandinn hugsar vel um púðann, passar að leðrið sé í góðu ásigkomulagi og öllu öðru sem gerir boxpúða að góðum boxpúða, þá mun hann taka áfram á móti höggum og verður slitsterkari yfir lengri tíma. Því betur sem við hugsum um líkama okkar því betur mun hann hugsa um okkur með auknum lífsgæðum. Síðast en ekki síst er mikilvægt að nefna að allt andlegt áreiti, álag og eða áföll sem við verðum fyrir fer einnig í stoðkerfið. Mikið andlegt sem líkamlegt vinnuálag örvar t.d. taugakerfið sem eykur spennu, hjartslátt og blóðþrýsting. Grunnöndun breytist sem eykur spennu í skrokknum upp í herðar og háls, streituhormóna (cortisol) framleiðsla eykst sem hefur áhrif á aðra hormóna, sem hefur áhrif á, efnaskipti, matarlyst, meltingarkerfið, svefn o.s.frv. Ég held þú sjáir hvert ég er að fara með þetta.
Mikilvægt er því að átta sig á að líkaminn er ein heild og vinnur eins og smurð vél þegar við erum í jafnvægi, bæði líkamlegu og andlegu. Þegar við erum það ekki þá hefur það áhrif á heildina. Ef ójafnvægi varir í of langan tíma þá getur það haft áhrif í formi stoðverks og eða andlegrar vanlíðunar.
Heimildir
Joint Structure and Fucntion
Höf: Pamela K. Levangie & Cynthia C. NorkinSeeley's Anatomy & Physiology, 10th Edition
Höf: Cinnamon VanPutte, Jennifer Regan, Andrew Russo, Rod Seeley, Trent Stephens & Philip Tate